Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, boðar endurskoðun veiðigjalda og segir undirbúning þess hafinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í gær.
Lilja Rafney sagði lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög hafa miklar áhyggjur af veiðigjöldum. Sagði hún að litlar útgerðir þoli ekki 200-300% hækkun á veiðigjöldum og að núverandi fyrirkomulag geti leitt til þess að fyrirtæki gefist upp með frekari samþjöppun aflaheimilda. „Þetta getur gerst mjög hratt. Við verðum að horfast í augu við það og bregðast við,“ sagði Lilja Rafney á Alþingi.
Frá því í janúar hefur atvinnnuveganefnd fengið fjölda gesta til sín til að ræða veiðigjöldin, fulltrúa útgerða, sveitarfélaga, landshlutasamtaka og fiskmarkaða.