Lækningavörur úr þorskroði í Vísindaporti

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða ætlar Dóra Hlín Gísladóttir frá Kerecis hf. að fjalla um sárastoðefni fyrirtækisins.

Kerecis er framsækið líftæknifyrirtæki á Ísafirði sem vinnur vefjauppbyggingarstoðefni úr þorskroði. Aðalvara fyrirtækisins er sárastoðefnið Kerecis Omega3 Wound, sem nú er selt víðsvegar um heiminn og er notað af sérfræðingum til að græða sár, oft sár sem ekki hefur tekist að loka með hefðbundnum aðferðum. Í erindinu verður fjallað um hugmyndina að lækningartækinu, eiginleika og virkni.

Dóra Hlín Gísladóttir er yfirmaður vöruþróunar & skráningardeildar og stýrir innleiðingu vöru á nýja markaði hjá Kerecis. Hún efnaverkfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands, með stuttri viðkomu í Santa Barbara í Kaliforníu og síðar frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi. Dóra Hlín vann áður sem framkvæmdastjóri rannsóknarstofunnar Agar ehf. og sem verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nordisk Energi Forskning í Ósló.

Vísindaportið er að vanda í hádeginu á föstudaginn og hefst kl 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir eru velkomnir.

DEILA