Það er ekki nokkur vafi í huga Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, að starf sviðsstjóra fiskeldis á að vera á Ísafirði. Haustið 2016 birtist fréttatilkynning á vef sjávarútvegsráðuneytisins ný störf í rannsóknum og eftirliti með fiskeldi og þar kom meðal annars fram að sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun flyttist til Ísafjarðar árið 2018. Gunnar Bragi segir að þetta hafi verið ákvörðun hans sem ráðherra en tekin í samráði við Sigurð Guðjónsson forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Sigurður sagði í samtali við bb.is í vikunni að starfið verði ekki flutt til Ísafjarðar.
„En auðvitað er það ráðherra sem tekur ákvörðunina og ber ábyrgð á henni en það voru haldnir fleiri en einn fundur um þetta með Sigurði og á honum sátu auk okkar, ráðuneytisstjórinn og aðstoðarmaður minn. Það er alveg kristaltært að starfið átti að vera á Ísafirði,“ segir Gunnar Bragi í samtali við bb.is.
Hann segir að stofnunin geti ekki snúið ákvörðuninni við. „Ef það á að breyta þessari ákvörðun þá þarf nýr ráðherra að gera það, ekki forstjóri stofnunarinnar. Ef embættismaður ætlar ekki að fylgja eftir ákvörðun ráðherra þá þarf að fylgja því eftir með viðeigandi ráðum,“ segir Gunnar Bragi.