Fiskeldisfyrirtæki sem hyggjast hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi funduðu með Hafrannsóknastofnun í vikunni. „Fundurinn var jákvæður og var farið yfir mótvægisaðgerðir sem snúa að minni möskvastærð, útsetningu á stærri seiðum og ljósastýringum að hausti og fram á vor,“ segir Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish.
Hann segir þessar aðgerðir raunhæfar fyrir fiskeldisfyrirtækin og bendir á að Arctic Fish hafi nú þegar fjárfest í aukinni afkastagetu í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Tálknafirði með það fyrir augum að geta alið stærri seiði.
Þessar mótvægisaðgerðir koma til með að draga úr hættu á erfðablöndun, en eins og kunnugt er lagðist Hafrannsóknastofnun gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi og vísar þar í áhættumat sem stofnunin gerði í fyrra.
„Við gerum fastlega ráð fyrir því að Hafró taki tillit til þessara mótvægisaðgerða við að keyra fram aðrar sviðsmyndir við það áhættumat sem var gefið út og það myndi hafa jákvæð áhrif fyrir framvindu mála í Ísafjarðardjúpi,“ segir Shiran
Aðspurður hvenær frekari tíðinda eða ákvarðana er að vænta segir Shiran erfitt að sjá nákvæman tímaramma. „ Þessi vinna sem er fram undan með Hafró á ekki að taka langan tíma og munum við fylgja því fast eftir að það komist niðurstaða í þessi mál sem allra fyrst en það er ekki alfarið í okkar höndum.“
Ef niðurstaða endurreiknaðs áhættumats sem tekur tillit til mótvægisaðgerða verður á þá leið að hægt verður að úthluta leyfum í Ísafjarðardjúpi í lok sumars segir Shiran að Arctic Fish gæti sett út stór seiði í Djúpið haustið 2019. „Með því myndi fyrirtækið jafnframt auka umsvif sín í Ísafirði og nágrenni og byggja þar með við þá starfsemi sem eru nú þegar í gangi í Dýrafirði,“ segir Shiran.