Fyrstu fjölskyldurnar komnar

Fyrstu flóttamennirnir sem koma til Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps komu í morgun. Tvær íraskar fjölskyldur lentu á Ísafjarðarflugvelli í morgun og starfsmenn og sjálboðaliðar Rauða krossins tóku á móti þeim. Önnur fjölskyldan verður búsett á Ísafirði og hin í Súðavík. Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisstjóri Rauða krossins á Vestfjörðum, segir að fólkið hafi verið á flótta í Jórdaníu en styrjaldarástand hefur ríkt í Írak frá því 2003 þegar Bandaríkjaher réðst inn í landið með skelfilegum afleiðingum.

Bryndís segir að það sem við taki hjá fólkinu sé að koma sér fyrir í nýjum heimkynnum. „Það er mikilvægt að þau læri íslensku en það tekur tíma. Börnin fara fljótlega í skóla og síðan fer fullorðna fólkið vonandi að vinna,“ segir Bryndís.

Í næstu viku koma þrjár fjölskyldur viðbótar og verða þær búsettar á Flateyri. Þær eru frá Sýrlandi og eru tengdar fjölskyldböndum og þótti ákjósanlegast að þær yrðu saman og fengu stuðning hver af annarri.

Bryndís segir fjölda fólks koma að verkefni sem þessu. „Samfélagið styður ríkulega við þetta og margir leggja hönd á plóg. Fjöldi sjálfboðaliða gáfu sig strax fram og koma flóttafólksins var ákveðin.“

Fólkið kom til landsins í gær og í nótt gistu þau á gistiheimili í Reykjavík. „Þar hittu þau unga konu sem kom barnsung til Ísafjarðar sem flóttamaður frá Júgóslavíu. Hún gat sagt þeim allt um það að þeim ætti eftir að líða vel fyrir vestan og að hér yrði tekið vel á móti þeim,“ segir Bryndís.

DEILA