Eggert Einer Nielson hefur sett svip sinn á mannlífið í Súðavík og á Ísafirði frá því hann flutti til landsins fyrir sjö árum. Eggert er Íslendingur, um það þarf ekki að efast þrátt fyrir að þunglamaleg stjórnsýslan segi annað og Alþingi hafi synjað honum um ríkissborgararétt. Í kjölfar synjunar Alþingis hefur hann ákveðið að yfirgefa landið.
Eggert fæddist á Íslandi, móðir hans íslensk og faðirinn danskur. „Ég er fæddur á Landspítalanum í Reykjavík árið 1957 og bjó á Íslandi þangað til ég var sjö ára þegar við fluttumst til Bandaríkjanna eftir að pabba bauðst vinna þar,“ segir Eggert. Hann á stóran frændgarð á Íslandi og eftir tvítugsaldurinn kom hann á hverju ári til Íslands. „Ég kom alltaf í nóvember á afmæli ömmu minnar og var í sirka viku. Svo fyrir ellefu árum keyptum við Michelle okkur hús á Íslandi og fyrir sjö árum stigum við skrefið til fulls og fluttumst til Íslands. Fyrst bjuggum við í Súðavík og fluttumst síðar til Ísafjarðar eftir að við keyptum Gúttó.“
Sonur þeirra, Eggert, gekk í efstu bekki grunnskólans á Íslandi og síðar í Menntaskólann á Ísafirði. Eggert og Michelle hafa verið áberandi í bæjarbragnum, bæði á Ísafirði og í Súðavík. Eggert hefur mest starfað fyrir Súðavíkurhrepp, sinnt skólaakstri, tónlistarkennslu og smíðakennslu. Einnig hefur hann starfað fyrir FabLab á Ísafirði. Eggert og Michelle eru tónlistarfólk fram í fingurgóma og hafa verið prímusmótorar Bláberjadaga, bæjarhátíð Súðavíkur, ásamt því að koma fram og spila á fjölda viðburða, bæði stórra og smárra.
Það er ekki svo að honum hafi verið vísað úr landi þegar honum var synjað um ríkisborgararétt. „En ég get ekki annað en hugsað að ég er ekki velkominn hér. Útlendingastofnun lætur mig fara í gegnum sama stappið ár eftir ár. Ég fæ landvistar- og atvinnuleyfi til eins árs. Í júlí hvert ár þarf ég að sækja um atvinnuleyfi og þarf að skila inn alls konar gögnum. Þá liggur oft ekki fyrir hversu mikið ég verð að vinna í skólanum, það kemst stundum ekki á hreint fyrr en í september.“
Eggert taldi alltaf að það væri ekkert mál fyrir sig að sækja um ríkisborgararétt, þar sem hann fæddist á Íslandi og móðirin íslensk. „Mér er tjáð að ríkisborgararétturinn hafi í þá daga fylgt föðurnum. Þetta breyttist árið 1960 en ég er fæddur 1957. Þar sem pabbi var danskur var mér bent á að sækja um danskan ríkisborgararétt og ég kannaði það en ég hefði þurft að gera það áður en ég varð 22 ára. En málið er fyrst og fremst að ég er ekki Dani, ég er Íslendingur.“
Eggert verður mjög leiður þegar hann ræðir þetta. Honum finnst að Ísland – hans ættjörð – sé að hafna honum og vilji helst losna við hann. „Þeir geta kannski synjað mér um ríkisborgararétt en ég verð alltaf Íslendingur. Ég er Íslendingur af holdi og blóði, ég heiti íslensku nafni og hér er mín fjölskylda. Þeir geta ekki tekið það frá mér,“ segir Eggert Einer Nielson.