Stefán Árni Auðólfsson lögmaður Eggerts Einers Nielson er bjartsýnn að Eggert fái íslenskan ríkisborgararétt. BB.is greindi fyrr í dag frá synjun Alþingis á beiðni Eggerts um ríkisborgarétt. Mál Eggerts er sérstakt fyrir þær sakir að Eggert er fæddur á Íslandi og móðir hans var íslenskur ríkisborgari og fyrstu sjö ár ævinnar bjó hann á Íslandi.
Í fyrstu grein laga um ríkisborgararétt segir að barn öðlast ríkisborgararétt við fæðingu ef móðir eða faðir er íslenskur ríkisborgari. En núgildandi lög voru ekki í gildi árið 1957 þegar Eggert fæddist á Landspítalanum í Reykjavík. Í því samfélagi þótti sjálfsagt að ríkisborgararétturinn fylgdi föðurnum, en ekki móður. Faðir Eggerts var danskur. Ekki fékk hann þó danskan ríkisborgararétt því eftir sjö ára búsetu í Reykjavík fluttist fjölskyldan til Bandaríkjanna þar sem Eggert fékk þarlendan ríkisborgararétt.
Á samfélagsmiðlum hafa samborgarar Eggerts á Ísafirði og í Súðavík sem og víðar tekið undir vonbrigði hans með málalyktir Alþingis og lýsa flestir yfir furðu sinni og einörðum stuðningi við Eggert.
Á vef DV er rætt við Stefán Árna lögmann Eggerts og hann segir að nú sé verið að vinna í þvði að endurnýja dvalarleyfið og hann telur möguleika á að hann fái ríkisborgararétt á þessu ári.
Hann á ekki von á því að Eggerti og fjölskyldu hans verði vísað úr landi en þau gætu lent í erfiðleikum ef þau færu erlendis í frí og reyndu að komast aftur inn í landið. „Brottvísun er alltaf yfirvofandi fyrir fólk eins og hann, hann er ekki fullgildur ef eitthvað kemur upp á. Þetta er erfið staða en vonandi þá bjargast þetta allt. Það er erfiðara með konuna hans og soninn, það vantaði meira af upplýsingum og gögnum og það hefur tafist,“ segir Stefán Árni.