Vestfirsk ferðaþjónusta hefur löngum glímt við erfiða vetrarmánuði þar sem ferðamennirnir hverfa og bissnessinn með. Þó er ýmislegt hægt að gera til að draga fólk vestur á firði – og þá gildir að stíla inn á styrkleika svæðisins. Hótel Ísafjörður hefur í vetur staðið fyrir skíðagöngunámskeiðum, en óvíða á landinu eru aðstæður til skíðagönguiðkunar eins góðar og á Ísafirði, bæði hvað varðar skíðagöngusvæðið sjálft og ekki síst kunnáttu þess fjölda fólks sem er í forsvari fyrir íþróttina hér í bæ. Námskeiðin verða alls átta talsins. „Við erum búin að fá 250 manns á námskeiðin til þessa og þetta verða um 350 þegar upp er staðið. Þetta eru 1.000 gistinætur á tíma sem er annars steindauður á hótelinu,“ segir Daníel Jakobsson hótelstjóri og skíðagöngufrömuður.
Síðustu þrjár helgar hafa einvörðungu verið konur á námskeiðunum og en hinar helgararnar eru námskeiðin blönduð.
Þetta er ekki fyrsti veturinn sem námskeiðin eru haldin en aðsóknin í vetur hefur verið einkar góð og er það í takt við sókn gönguskíðaíþróttarinnar.
Með útibú fyrir sunnan
Daníel, sem hefur stundað gönguskíði frá barnsaldri og var á sínum tíma landsliðsmaður, segir enga eina skýringu á auknum vinsældum gönguskíðanna. „Það er heilsu- og hreyfibylgja í landinu. Fólk hugsar meira um gildi hreyfingar fyrir góða heilsu. Svo erum við fámenn og þetta komst í tísku og er fljótt að breiðast út. Svo er starfandi öflugt félag í Reykjavík sem er að taka þúsund til tvö þúsund manns á námskeið á hverju ári,“ segir Daníel.
Og fyrst minnst er á námskeiðin í Reykjavík þá er vert að minnast á að kennararnir þar stigu flestir fyrst í sporið á Seljalandsdal. Nægir að nefna Einar Ólafsson, Auði Ebenezersdóttir, Óskar Jakobsson, Katrínu Árnadóttur og Ólaf Th. Árnason.
„Það má vel segja að þetta sé útibú frá okkur, við erum að breiða út fagnaðarerindið,“ segir Daníel.
Flestir stefna á Fossavatnsgönguna
Auk námskeiðanna sem Hótelið stendur fyrir hefur Fossavatnsgangan staðið fyrir svokölluðum Fossavatnsbúðum í um tíu ár.
Daníel segir að sín tilfinning sé að ríflega helmingur þeirra sem sækja námskeiðin komi aftur vestur í vor til að ganga Fossavatnsgönguna. Hann leggur áherslu á að aðdráttarafl námskeiðanna séu góðar aðstæður á Seljalandsdal og góðir leiðbeinendur sem ísfirsk skíðamenning státar af.
„Hvað Seljalandsdal varðar þá fer sá tímapunktur að nálgast að við þurfum að huga að næsta skrefi. Svæðið er mjög gott í dag en við getum gert það enn betra og komið því á næsta stig og það getur verið enn meira aðdráttarafl fyrir bæinn. Ekki bara á veturna því Seljalandsdalur á að vera ferðamannastaður bæði sumar og vetur,“ segir Daníel.