Byggðastofnun hefur auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda á Tálknafirði, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Samtals er um að ræða allt að 1.800 þorskígildistonna kvóta á ársgrundvelli. Viðbótaraflaheimildinar, sem oft eru nefndar sértækur byggðakvóti skiptast svo: Tálknafjörður – 400 tonn. Þingeyri – 500 tonn. Flateyri – 400 tonn. Suðureyri – 500 tonn.
Meginmarkmið sértæks byggðakvóta er að auka byggðafestu í þeim sjávarbyggðum sem standa frammi fyrir alvarlegum og bráðum vanda vegna skorts á aflaheimildum eða óstöðugleika í sjávarútvegi og eru háðastar sjávarútvegi og eiga minnsta möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu.
Aflaheimildunum er ætlað að skapa og viðhalda sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum og stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma.
Endanlegt val á samstarfaðilum mun byggja á eftirfarandi þáttum:
▪ trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi
▪ fjöldi heilsársstarfa fyrir karla og konur
▪ sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðalaginu
▪ öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina
▪ jákvæðum áhrifum á önnur fyrirtæki og samfélagið
▪ traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda