Hallinn á vöruskiptum Íslands við útlönd nam 151,9 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs. Það þýðir að hallinn er tæpum 52 milljörðum meiri en á sama tíma árið 2016.
Í nóvember voru fluttar út vörur fyrir 47,5 milljarða króna og inn fyrir 56,2 milljarða.. Vöruviðskiptin í nóvember, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 8,7 milljarða króna. Í nóvember 2016 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 11,6 milljarða á gengi hvors árs.
Í janúar til nóvember 2017 voru fluttar út vörur fyrir 474,6 milljarða króna en inn fyrir 626,4 milljarða. Því var halli á vöruviðskiptum við útlönd sem nam tæpum 151,9 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 100,2 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn í janúar til nóvember 2017 var því 51,7 milljörðum króna hærri en á sama tíma árið áður, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.