AB-Fasteignir ehf. hefur í hyggju að virkja Úlfsá í Dagverðardal í Skutulsfirði. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti fyrir helgi samning við fyrirtækið um rannsókna- og virkjanaleyfi í Úlfsá og er samningurinn til 25 ára. Fyrirtækið áformar að reisa 200 KW virkjun sem verður tengd inn á raforkunet Orkubús Vestfjarða.
Inntak virkjunarinnar verður við gamla aflagða námu við árfarveg Úlfsár við Neðra Austmannsfall. Um 40 fm stöðvarhús verður reist um 1.700 metrum neðar í dalnum. Framkvæmdir verða að mestu á röskuðu landi og umhverfisáhrif því lítil.
Verði af virkjuninni gætu leigutekjur Ísafjarðarbæjar numið einni milljón króna á ári.