Verðhækkanir um áramót

Ýmsar verðhækkanir tóku gildi um áramótin. Til að mynda hækkaði eldsneyti í verði sem og áfengi og tóbak. Þá hækkuðu gjaldskrár fyrir margs konar þjónustu hjá flestum ef ekki öllum sveitarfélögum.

Áramót eru gjarnan tími breytinga hjá fólki, en þau eru ekki síður tími verðbreytinga. Eldsneytisgjald hækkar um 2% sem þýðir að verð á bensín- og dísellítranum hækkar um liðlega fimm krónur. Eldsneytisgjaldið er krónutölugjald og það er áfengisgjaldið líka og þar verður einnig um 2% hækkun sem og gjald á tóbak. Þetta á einnig við um útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Kolefnisgjald, sem leggst á eldsneyti, hækkar um 50% og  á að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Liður í því er einnig að niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla er framlengd. Hún átti að renna út um áramótin en verður í gildi þar til bílum í hverjum þessara flokka hefur fjölgað í tíu þúsund, en þó ekki lengur en til ársins 2020.

DEILA