Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að taka veiðigjöld í sjávarútvegi til endurskoðunar á árinu með það að markmiði að lækka gjöldin á lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki og afkomutengja þau.
„Við erum að horfa til litlu og meðalstóru fyrirtækjanna sem eru ekki að ráða við þá miklu hækkun sem varð á veiðigjaldinu 1. september á síðasta ári,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, í umfjöllun um veiðigjöldin og áformaða lækkun þeirra í Morgunblaðinu í dag.
„Sú hækkun var mjög mikil, alveg frá 200 prósentum og yfir 300 prósenta hækkun hjá sumum. Það er farin af stað vinna í ráðuneytinu við að skoða þetta. Sú vinna á að ganga hratt fyrir sig.“