Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hóf í dag þriggja daga ferð um Vestfirði þar sem hann mun meðal annars hitta fulltrúa sveitarstjórna, atvinnulífs, umhverfisverndarsamtaka, starfsmenn stofnana og heimafólk samkvæmt fréttatilkynningu.
„Ráðherra vill með heimsókninni kynna sér þau mál sem eru í deiglunni á landssvæðinu er tengjast málefnasviðum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Má þar nefna skipulagsmál, raforkuöryggismál, náttúruvernd, samgöngumál, fiskeldi og fleira,“ segir enn fremur.
Ferðin hófst á Bíldudal þar sem hann kynnti sér fiskeldismál áður en hann fundaði á Patreksfirði með sveitarstjórnarfulltrúum frá Vesturbyggð og Tálknafirði. Ráðherrann mun einnig heimsækja Reykhólasveit, Ísafjörð og Bolungarvík þar sem hann mun funda með fólki víðar af Vestfjörðum. Þá mun hann eiga fjarfund með sveitarstjórnarfólki í Árneshreppi.