Nú í vor fara fram sveitastjórnarkosningar og þá fer að hefjast umræða og mótun á nýrri bæjarstjórn í bryggjuskúrum og kaffistofum eða maður á mann niður í kaupfélagi.
Í Norðvesturkjördæmi eru 26 sveitarfélög með samtals 30.340 íbúa á síðustu haustmánuðum samkv heimildum Hagstofu Íslands. Í kosningum árið 2014 voru rúmlega 700 manns í framboði ef miðað er við þann fjölda framboða sem voru í boði. Bara í Sveitarfélaginu Skagafirði voru 72 í framboði enda voru fjögur framboð til sveitastjórnarkosninga. Þetta er dágóður fjöldi og segir margt um áhuga fólks á sínu nærumhverfi.
Í þessum 26 sveitarfélögum eru 166 sem starfa í sveitastjórnum og jafn margir til vara og þá ótalið þau sem starfa í nefndum og ráðum fyrir sitt sveitarfélag. Miklu skiptir að fá gott fólk til starfa. Það þarf að hafa mikla þekkingu á breiðu sviði og mannlega hæfni til samstarfs og stjórnunar og miklu skiptir að hafa brennandi áhuga á samfélaginu. Enda þarf sveitastjórnarfólk að eyða miklum tíma í sveitastjórnarmál sem yfirleitt er tekinn af tíma fjölskyldu og áhugamála viðkomandi.
Á næstu vikum verður farið að huga að framboðsmálum þeir sem sitja nú þegar í sveitastjórn gera upp hug sinn til áframhaldandi setu og leita þarf að nýjum aðilum til að fylla í skarð þeirra sem hætta.
Það skiptir miklu máli að sveitastjórnarfólk hafi góðan stuðning samborgara sinna og öflugt stuðningsnet ekki bara í kringum kosningar heldur kjörtímabilið út. Undanfarin ár hefur verið mikil skipti inn í sveitastjórnum og fólk endist stutt. Kannski ekkert skrýtið alltaf eru að aukast verkefni sveitastjórna og verkefnin umfangsmikil. Skipulagsmál og velferðamál og önnur viðkvæm mál geta tekið toll og tíma.
Verkefni í nærumhverfi okkar kemur okkur við og eðliegt að ólíkar skoðanir séu um lausnir og leiðir. Gleymum samt ekki að hafa gagnrýni uppbyggilega og styðjandi og vegum ekki að persónum sveitastjórnarfólks. Hér gildir eins og annarstaðar að aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Öll viljum við öflugt sveitarfélag og gleymum ekki og þátttaka allra telur í lífi og starfi. Fulltrúar í sveitastjórn getur endurspeglað þann mannauð sem býr í hverju samfélagi gegn góðum stuðningi íbúa.
Halla Signý Kristjánsdóttir
7. þingmaður NV kjördæmis.