Telur um yfirsjón bæjarstjóra að ræða

Stúdíó Dan.

Það var ekki rétt af bæjarstjóra að inna af hendi greiðslu vegna kaupa Ísafjarðarbæjar á Stúdíó Dan ehf. Þetta kemur fram í minnisblaði Andra Árnasonar hæstraréttarlögmanns. Samningaviðræður um kaupin stóðu yfir í haust og á  fundi bæjarráðs 13. nóvember var samþykkt að fela Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra að ljúka kaupsamningi við eigendur Stúdíó Da og leggja samningana til samþykktar fyrir bæjarstjórn.

Hinn 28. desember var kaupsamningurinn undirritaður, og helmingurinn af kaupverðinu, 7,5 milljónir króna, greiddur áður en samþykkt bæjarstjórnar lá fyrir

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi embættisfærslu Gísla Halldórs og í bókun í bæjarstjórn sagði Daníel að honum hafi ekki verið heimilt að greiða helming kaupverðsins þar sem kaupsamningurinn hafi ekki verið samþykktur í bæjarstjórn.

Í minnisblaðinu segir að í kaupsamningi Ísafjarðarbæjar og Stúdíó Dan er kveðið á um að helmingur skuli greiðast við undirritun samnings. Um orðalagið  „undirritun samnings“ segir í minnisblaðinu að það ber jafnan að skilja svo að ekki skuli koma til slíkrar greiðslu fyrr en skilyrði samnings um endanlegt samþykki hefur verið fullnægt, sem í þessu tilfelli er samþykki bæjarstjórnar.Að mati Andra á það sérstaklega við þegar um opinbera aðila er að ræða og þar sem valdheimildir eru afmarkaðar.

„Verður því að telja að þó svo að orðalagið „við undirritun“ hafi verið notað hafi samningurinn ekki orðið formlega virkur og bindandi fyrr en við samþykkt bæjarstjórnar og því hafi ekki verið rétt að inna nefnda greiðslu, 7,5 mkr., af hendi á fyrrnefndu tímamarki. Jafnframt ber að líta svo á að seljandi hafi í raun ekki átt rétt á að fá greiðsluna í hendur fyrr en að skilyrðinu fullnægðu. Var það því, að telja verður, yfirsjón að inna greiðsluna af hendi hinn 28. desember,“ segir í minniblaði Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns.

DEILA