Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga stendur heilshugar á bak við öll þau áform sem styrkja innviði samfélags á Vestfjörðum og þar með er talið virkjun Hvalár, að því gefnu að tenging hennar verði til þess að bæta raforkugæði á svæðinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar sambandsins í tilefni af skýrslu Landverndar um raforkuöryggi á Vestfjörðum. Á það er bent að í tíu ár hafa Vestfirðingar litið á virkjun Hvalár sem hornstein að öflugra raforkukerfi og að allan þann tíma hafa vestfirskir sveitarstjórnarmenn ályktað á þá leið að tengja skuli Hvalárvirkjun inn á raforkukerfið á norðanverðum Vestfjörðum.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga er efnislega sammála skýrsluhöfundum, sem gerðu skýrslu Landverndar um raforkukerfi Vestfjarða, að tenging Hvalárvirkjunar suður í Kollafjörð geri lítið sem ekkert til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. „Enda líta sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum einungis á slíka tengingu sem hluta af stærra verkefni, þe. hringtengingu. Ekki verður fallist á það sem lokaútgáfu af tengingu,“ segir í yfirlýsingunni.
Að mati stjórnar Fjórðungssambandsins er vandséð með hvaða hætti geti talist réttlætanlegt að ætla Landsneti að ráðast í tugmilljarða framkvæmdir og lagningu allt að 190km af jarðstrengjum á Vestfjörðum eins og lagt er til í skýrslu Landverndar, þar sem fyrirsjáanlegt er að slíkar framkvæmdir skila fyrirtækinu litlum sem engum nýjum tekjum.
„Flutningur raforku frá Hvalárvirkjun og mögulegum öðrum tveimur virkjunum á því svæði mun á hinn bóginn auka tekjur Landsnets um 5-700 milljónir árlega og getur auðveldlega staðið undir umtalsverðum kostnaði sem fyrirsjáanlegur er við uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða,“ segir í yfirlýsingu Fjórðungssambandsins.