Landsnet fagnar umræðu um bætt afhendingaröryggi og uppbyggingu á raforkukerfinu á Vestfjörðum. Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd um raforkukerfið á Vestfjörðum er fjallað um áreiðanleika flutningskerfisins á svæðinu. Í tilkynningu frá Landsneti segir að tillögur sem koma fram í skýrslunni um að leggja stóran hluta kerfisins í jörðu séu óraunhæfar og villandi.
Tæknilegar hindranir koma í veg fyrir að hægt sé að leggja allar línur í jörð, að sögn Landsnets og er ólíkur styrkur kerfisins milli landsvæða meginástæða þess að svigrúm til jarðstrengslagna er mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt er meira rými til þess heldur en þar sem styrkurinn er lítill.
„Á Vestfjörðum er kerfið hvað veikast á landinu. Vesturlínan er um 160 km, frá Hrútatungu að Mjólká og áætlað er að hægt sé að leggja um 15 – 20 km af henni í jörðu. Fyrir nokkrum árum var lagður 12 km langur jarðstrengur í Bolungarvíkurgöng. Við rekstur á jarðstrengnum hefur reynt á þolmörk kerfisins og því hefur Landsnet góðar upplýsingar um styrk kerfisins á svæðinu,“ segir í tilkynningunni og að í skýrslunni sem Metsco gerði fyrir Landvernd sé ekki fjallað um þessa takmörkun á lengd jarðstrengja heldur gert ráð fyrir að hægt sé að leggja jarðstrengi á alla Vestfirði sem er óraunhæft. „Staðreyndin er að einungis er hægt að leggja hluta kerfisins í jörð og því fullyrðingar um að hægt sé að tífalda afhendingaröryggi á Vestfjörðum með jarðstrengjum villandi.“
Á það er bent að Landsnet hafi verið unnið að styrkingu á flutningskerfinu á Vestfjörðum undanfarin ár, til dæmis með byggingu varaaflsstöðvar í Bolungarvík og lagningu jarðstrengs í Bolungarvíkurgöng. Að auki er unnið að undirbúningi hringtengingar á milli norður – og suðurfjarðanna, meðal annars með sæstreng yfir Arnarfjörð og lagningu á jarðstreng í gegnum Dýrafjarðargöng. Í hringtengingunni er lögð áhersla á að nota jarðstrengi eins mikið og kostur er vegna aðstæðna.