Í yfirlýsingu VesturVerks segir að aukin orkuframleiðsla á svæðinu sé forsenda fyrir auknu raforkuöryggi í fjórðungnum og að undir það taki Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir hönd vestfirskra sveitarfélaga. „Því nær sem orkuuppsprettan er notandanum því öruggari er tengingin til notandans vegna styttri flutningsleiða,“ segir í í yfirlýsingu Vesturverks.
Um skýrsluna segir í yfirlýsingu Vesturverks:
„Í skýrslunni er einvörðungu lagt mat á raforkuöryggi út frá tveimur ólíkum kostum í flutningi á raforku – með loftlínum eða með jarðstrengjum. Ekkert mat er lagt á virkjanakosti á Vestfjörðum eða fyrirætlanir VesturVerks um flutning raforku frá Hvalárvirkjun. Hvergi er minnst á með hvaða hætti Hvalárvirkjun mun tengjast flutningskerfi Landsnets. Skýrsluhöfundur nefnir Hvalárvirkjun einungis í einni málsgrein í inngangi skýrslunnar og setur þar fram þá skoðun sína að með loftlínum muni Hvalárvirkjun litlu bæta við raforkuöryggi svæðisins. Þessi skoðun er ekki frekar rökstudd og ekkert efnislegt mat lagt á getu Hvalárvirkjunar til að tryggja raforku til Vestfirðinga.“
Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði yfir í tengimannvirki við Ísafjarðardjúp. Meðal valkosta er að flytja orkuna þaðan með sæstreng yfir Ísafjarðardjúp og leggur Fjórðungssamband Vestfirðinga áherslu á þá leið. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gert þá kröfu að Vestfirðir verði hringtengdir í gegnum nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi með tengingu til Kollafjarðar og til Ísafjarðar. „Sú sviðsmynd er ekki skoðuð í skýrslunni,“ segir í yfirlýsingu Vesturverks.
Kostnaður við lagningu tæplega 200 km rafstrengs í jörðu er í skýrslunni áætlaður um 20 milljarðar íslenskra króna. Engar nýjar tekjur munu hljótast af því einu og sér að leggja raflagnir Landsnets og Orkubús Vestfjarða í jörðu og að mati Vesturverks er vandséð að sá kostnaður verði greiddur af öðrum en hinu opinbera.