Ótíð tefur fyrir gangamönnum

Munni Dýrafjarðarganga í Arnarfirði.

Greftri Dýrafjarðarganga hefur miðað vel frá því framkvæmdir hófust síðasta sumar, en fyrsta sprenging í göngunum var í september. Tíðarfarið síðustu vikur hefur gert starfsmönnum Suðuverks og Metrostaf erfitt fyrir, enda er vinnusvæðið í Arnarfirði einangrað að vetrarlagi. Vetrarþjónusta er hvorki á Hrafnseyrarheiði né Dynjandisheiði og vaktaskipti hafa gengið illa síðustu daga vegna veðurs. Gangamenn hafa farið með bát frá Bíldudal að Mjólká þegar ekki er hægt að komast yfir Dýnjandisheiði. Karl St. Garðarsson, staðarstjóri Suðurverks, segir í samtali við Morgunblaðið, að síðustu daga hafi vinnustaðurinn ekki verið fullmannaður vegna erfiðleika við vaktaskipti og heill sólarhringur datt úr vinnu vegna þessa um helgina.

Í útboðsgögnum Dýrafjarðarganga er tekið fram að Vegagerðin tryggi mokstur á Dynjandisheiði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann svo verktakar geti flutt að nauðsynleg aðföng vegna fram- kvæmdarinnar. Suðurverk er með hefil í Arnarfirði og þegar Vegagerðin mokaði ekki fyrr í vetur renndu starfsmenn Suðurverks í gegn með heflinum. Í útboðsgögnum er hins vegar tekið fram að verktakanum sé ekki heimilt að moka heiðina fyrir sig og aðra nema með leyfi Vegagerðarinnar. Þeir eru ekki með snjóblásara og hefur ekki fengist leyfi til að moka með hefli að undanförnu.

Sigurður Mar Óskarsson, deildsarstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir í samtali við Morgunblaðið
segir að erfiðara sé fyrir Vegagerðina að ryðja veginn um Dynjandisheiði ef einkaaðilar hafi áður opnað hann með hefli og hrúgað upp snjónum. Sigurður Mar tekur fram að Vegagerðin hafi fyllilega staðið við ákvæði útboð um mokstur á Dynjandisheiði einu sinni í mánuði.

DEILA