Ómar Ragnarsson má muna fífil sinn fegurri. Í áratugi skemmti hann Íslendingum með gamanvísnasöng, oftast með frumsömdum kveðskap og jafnvel lögum eftir hann sjálfan. Ómar er listamaður af Guðs náð og ekki má gleyma Stiklum hans um íslenska náttúru, sem margar hverjar voru frábærar.
En ósköp hefur hann elst illa og nú virkar hann sem gamall og öfugsnúinn „besservisser“ sem hefur allt á hornum sér. Moggabloggið segir meira um ástand hans en margt annað, en þar eys hann af visku sinni og telur sig einan hafa á réttu að standa, í hvaða umræðuefni sem er.
Pistlar hans snúast oftast um hann sjálfan, sem er að sjálfsögðu í lagi, en þreytandi til lengdar. Það er málfrelsi í landinu og öllum frjálst að tjá sig að vild, en þegar málflutningurinn er kominn út í linnulausar árásir á fólk og heilu landshlutana, þá er mælirinn fullur.
Ómar Ragnarsson hefur um langt skeið ráðist að Vestfirðingum með kjafti og klóm og reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir áform heimamanna um framfarir og umbætur í fjórðungnum. Hann hefur talið sig þess umkominn að fordæma ákvarðanir sveitarstjórna og almennings í raforkumálum, fiskeldi og vegamálum.
Þessir þrír málaflokkar hafa mjög lengi verið á dagskrá sveitarstjórna, Fjórðungssambands Vestfirðinga og þingmanna kjördæmisins, reyndar allt of lengi, m.a. vegna áróðursmanna á borð við Ómar Ragnarsson og hans líka, sem vilja helst gera alla Vestfirði að þjóðgarði.
Ómar hefur trúlega ekki áttað sig á því að hér eru Vestfirðingar að berjast fyrir lífi sínu með betra vegasambandi og aukinni raforku, sem m.a. er nauðsynleg til að auka fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og til að efla og koma á fót iðnaði, sem fram til þessa hefur ekki verið hægt að ráðst í vegna raforkuskorts, og til að treysta mannlíf og lífsgæði íbúanna.
Til marks um áróður, yfirgang og skort á háttvísi má geta þess að Ómar tróð sér inn á fund í Árneshreppi til að mótmæla áformum um virkjum Hvalár og nú á dögunum sendi hann inn athugasemd við vegarlagningu í Barðastrandarsýslu. Reyndar vildi þessi „besservisser“ að raunhæfar tillögur Vegagerðarmanna og heimamanna um lagningu nýs vegar vikju fyrir hans hugrenningum.
Ég held að Ómar ætti að sjá sóma sinn í því virða vilja Vestfirðinga og sérfræðinga Vegagerðarinnar í þessum efnum og vera ekki að skipta sér af málum sem koma honum lítt eða ekkert við.
Það er vissulega dapurlegt hvernig komið er fyrir Ómari Ragnarsyni, því þjóðin dáði þennan mann hér áður fyrr, fyrir léttlyndi og dugnað og um nokkurt skeið fyrir umhyggju fyrir náttúrunni. Að vísu nær þessi umhyggja ekki til ýmissa verka Ómars sjálfs, t.d. lagning flugvallar á hálendinu (með leyfi hvers ?) og aksturs hans (utan vega?) í fréttaöflun fyrir Sjónvarpið.
Ég óska Ómari Ragnarssyni góðrar elli og vona að hann sjái að hann hefur komið ómaklega fram við Vestfirðinga og reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir bætt mannlíf og framfarir á Vestfjörðum.
Magnús Reynir Guðmundsson, Ísafirði