Nýtt gólf vígt með tvíhöfða gegn ÍA

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Það verður stór stund í íþróttahúsinu á Torfnesi um helgina. Þá verður nýtt gólf íþróttahússins vígt með tveimur heimaleikjum Vestra gegn ÍA í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta. Framkvæmdir við nýtt gólf hófust í byrjun desember og átti það að vera tilbúið fyrir rúmri viku en framkvæmdir töfðust.

Fyrri leikurinn við ÍA hefst kl. 18 á laugardag og sá síðari kl. 14 á sunnudag. Áhorfendum er sérstaklega bent á að brýnt er að ekki sé farið inn á gólfið á útiskóm til að hlífa því. Auk þess sem nýtt gólf verður tekið í notkun verður sömuleiðis nýtt hljóðkerfið tekið í gagnið.

En þá er ekki öll sagan sögð því svokallað flaggskip deildarinnar, B-lið Vestra, tekur á móti Fjarðabyggð á sunnudagsmorguninn kl. 10:30. Sá leikur fer þó fram í Musterinu í Bolungarvík vegna tilmæla frá verktaka um að hlífa nýlökkuðu gólfi Torfnessins við „þungum hlutum“, eins og það er orðað í tilkynningu frá Vestra.

DEILA