Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fagnar nýútkominni skýrslu um raforkuöryggi á Vestfjörðum sem Landvernd lét vinna. Landvernd leitaði til kanadíska ráðgjafafyrirtækisins METSCO Energy Solutions um vinnslu skýrslunnar, sem er á ensku. Á meðal niðurstaðna skýrsluhöfunda er það að tífalda megiraforkuöryggi á Vestfjörðum með því að setja hluta Vesturlínu og fleiri línur á sunnanverðum Vestfjörðum í jörð. Hins vegar geri virkjun Hvalár lítið til að bæta raforkuöryggið þar að mati skýrsluhöfunda.
„Ég almennt fagna því að fá fram upplýsingar. Skýrslugerð og almenn upplýsingaöflun og -vinna og þegar sérfræðingar kafa ofan í mál hlýtur almennt að vera af hinu góða. Ég mun bara fara yfir þessa skýrslu og kynna mér efni hennar,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við blaðamann mbl.is.
Ráðherrann segir að þessa dagana séu málefni fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar ekki á sínu borði. „Hún er auðvitað mikið í umræðunni en málið er áfram bara í ferli. Sveitarfélögin eru að vinna það og þá eru auðvitað eftir fleiri leyfi og annað slíkt, en það er ekkert sem snýr að þessu ráðuneyti hvað það varðar,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún bætir því við að henni þyki sjálfsagt að fólk ræði um kosti og galla allra framkvæmda, en Hvalárvirkjun sé í nýtingarflokki rammáætlunar, öðrum áfanga, sem afgreiddur hefur verið af þinginu.
Ráðherra segir nauðsynlegt að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum til að tryggja samkeppnishæfni fjórðungsins.
„Ég hef verið mjög skýr með það að það er ekki hægt að segja við landsvæði að við viljum jöfn tækifæri fyrir alla og að við viljum byggð úti um allt land þegar að innviðir, eins og raforkuöryggi, samgöngur og annað, eru jafnvel áratugum á eftir á ákveðnum svæðum,“ segir Þórdís Kolbrún.