Metár í orkuframleiðslu Orkubúsins

Mjólkárvirkjun

Vatnsaflsvirkjanir Orkubúsins framleiddu á árinu 2017 rúmlega 95 GWst, sem er met í 40 ára sögu fyrirtækisins. Síðasta ár var samt ekki afgerandi gott vatnsár, heldur er þetta vegna meiri aflgetu, sem felst í nýjum túrbínum. Þetta kemur fram í pistli Sölva Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs Orkubúsins á vef OV. Sölvi nefnir til dæmis að fyrir rúmu ári lauk uppsetningu á nýrri vél í Mjólká I haustið 2016.

Nú er endurnýjun gömlu vélanna lokið í Mjólká. Mjólká II var endurnýjuð 2011 og Mjólká III, sem var ný virkjun frá grunni, byggð 2010. Meðaltal síðustu 10 ára fyrir 2011 í Mjólká var 61 GWst, en 2017 var framleiðsla virkjunarinnar 73 GWst. Aflið er nú 11,2 MW en var 8,1 MW. Samanburður á framleiðslu fyrri ára segir því ekki alla söguna.

Fossárvirkjun er annað dæmi um vélaendurnýjun. Nýrri vél var komið fyrir í nýju stöðvarhúsi haustið 2015 og framleiðslan var 5,7 GWst 2016 og 5 GWst 2017. Afl vélarinnar nú 1.200 kW í stað 600 kW áður. Vatnsbúskapurinn, sem er innrennslið í Fossavatn, gaf ekki tilefni til að tvöfalda vélastærðina, en lónið er það stórt að í bilanatilvikum í raforkukerfinu nýttist þetta aukna afl sem varaafl. Þannig gagnast vélin vel til að spara olíu í eldsneytisstöðvum á svæðinu. Meðaltal gömlu vélarinnar á árunum fyrir 2015 var tæpar 4 GWst/ári.

DEILA