Kröfuharðasti staðall í sjálfbæru fiskeldi

Sjókvíar í Tálknafirði.

MSC vottun sjávarafurða er nokkuð þekkt á Íslandi en til er sambærileg vottun í fiskeldi og nefnist hún ASC vottun og er einn kröfuharðasti staðall í sjálfbæru fiskeldi. Eitt fyrirtæki á Íslandi hefur hlotið ASC vottun en það er Arctic Fish. Sigurður Pétursson hjá Arctic Fish segir í samtali við Fiskifréttir að það hafi verið langt og býsna strangt ferli að fá ASC-vottunina.

„Við förum í svokallaða forskoðun 2016 og þar kemur fram hvað þarf að bæta hjá okkur. Sérstaklega eru það nokkur atriði sem snúa að rekjanleika,“ segir Sigurður í viðtalinu.

Hann segir ASC-úttektina hafa verið gerða samkvæmt laxastaðli ASC, þótt hún hafi verið gerð fyrir regnbogasilung því Arctic Fish einbeitti sér til að byrja með að regnbogasilungnum. Vottunin gildir fyrir eldissvæðin í Dýrafirði og Önundarfirði.

„Hún gildir einnig fyrir lax,“ segir Sigurður. „Við þurfum svo þegar við byrjum á öðrum svæðum, svo sem Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði, að fá úttekt líka á þeim eldissvæðum.“

Arnarlax hf. á Bíldudal vinnur að ASC vottun og hefur gert síðasta árið. Búist er við að fyrirtækið fái vottunina á fyrri helmingi þessa árs.

DEILA