Umboðsmaður Alþingis hefur sent 15 fjölmennustu sveitarfélögunum utan Reykjavíkur samhljóða fyrirspurn þar sem hann óskar eftir svörum við því hvaða úrræði séu í boði fyrir utangarðsfólk sem er í áfengis-og vímuefnaneyslu til að fá úthlutað húsnæði. Umboðsmaður hefur frá árinu 2016 haft húsnæðisvanda utangarðsfólks í Reykjavík til athugunar í framhaldi af umfjöllun um kvartanir og ábendingar sem embættinu bárust.
Í fyrirspurn umboðasmanns kemur fram að hann hafi tekið málefni utangarðsfólks sem glími við áfengis/eða vímuefnavanda til athugunar að eigin frumkvæði og viljað kanna hvaða möguleika þeir eigi til að fá húsnæði með aðstoð Reykjavíkurborgar. Hann segir að þessari athugun hefði átt að ljúka í lok síðasta árs en þá hafi komið fréttir um að velferðarráð myndi auka stuðning við utangarðsfólk.
Umboðsmaður segir að við athugun málsins hafi komið í ljós að hluti þeirra sem hafi verið húsnæðislausir í Reykjavík síðustu misseri eigi lögheimili eða hafi áður búið í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík. Fjölmiðlar hafi einnig greint frá því að þeir hafi farið til borgarinnar vegna skorts á viðeigandi úrræðum í þeim sveitarfélögum sem þeir áttu lögheimili í eða höfðu dvalið.
Af þessum sökum hafi umboðsmaður ákveðið að óska eftir upplýsingum frá 15 fjölmennustu sveitarfélögunum fyrir utan Reykjavík. Í fyrirspurn sinni til óskar umboðsmaður meðal annars eftir svörum við því hvaða almennu og sértæku úrræði séu í boði, hversu margir nýti sér þau og hversu margir séu á biðlista. Ef engin sértæk úrræði séu í boði þá vill umboðsmaður vita hvernig sveitarfélagið bregðist við í slíkum tilvikum.