Hópur náttúruverndarsamtaka, veiðiréttarhafa og landeigenda hefur kært útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir auknu 14.500 tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Farið er fram á ógildingu leyfanna. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, veiðiréttarhafar og landeigendur eru meðal kærenda. Í byrjun mánaðarins kærðu sömu aðilar starfsleyfi Arctic Fish í Dýrafirði.
Óttar Yngasvon lögfræðingur hefur verið í forsvari fyrir Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi. Hann er eigandi Haffjarðarár á Snæfellsnesi og hefur áður kært leyfisveitingar vegna laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. Úrskurðarnefndin vísaði kærunum frá með þeim rökum að eigendur Haffjarðarár hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þar sem áin er það fjarri eldissvæðunum.
Umhverfisstofnun og Matvælastofnun veittu Arctic Fish og Fjarðarlaxi, dótturfyrirtæki Arnarlax, starfs- og rekstrarleyfi fyrir auknu laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði í lok desember. Arctic Sea Farm fékk leyfi fyrir 6.800 tonna framleiðslu og Fjarðarlax leyfi fyrir 10.700 tonnum.
RÚV greinir frá að kærendur segja að vanræksla leyfisveitenda og annmarkar á leyfunum og útgáfum þeirra valdi ógildingu þeirra. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við fordæmalausa stærð eldisins, sammögnunaráhrif laxeldis í fjörðunum, magn úrgangs, upplýsingar til almennings sem og áhrif eldisins á aðra nytjafiska. Ein aðalathugasemd kærenda að þeir telja íslensk stjórnvöld ekki hafa rétt til að afhenda eignar- og afnotarétt að hafsvæði við landið, til þess skorti lagaheimild.