Á miðvikudagskvöld 17. janúar verða 2. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á yfirstandandi starfsári. Á tónleikunum koma fram Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari og hollenski pianoleikarinn Marcel Worms. Á dagskránni eru verk eftir Felix Mendelssohn, Dmitri Shostakovich, Mieczyslaw Weinberg og Dick Kattenburg.
Ásdís er í hópi fremstu tónlistarmanna íslenskra en hefur að mestu starfað erlendis. Hún stundaði m.a. nám í Juilliard-tónlistarháskólanum og síðar í Evrópu. Ásdís hefur leikið einleik m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands en þó lagt mesta áhersla á þátttöku í kammertónlistarflutningi og starfað með mörgum þekktum kammertónlistarhópum. Hún er nú búsett í Hollandi og hefur að undanförnu unnið mikið með hinum þekkta píanóleikara Marcel Worms. Hann hefur komið fram víðs vegar um heiminn, leikur afar fjölbreytta tónlist og hefur gefið út fjölmarga hljómdiska.
Tónleikar þeirra Ásdísar og Marcels verða í Hömrum miðvikudagskvöldið 17.janúar og gefjast kl 20;00. Áskriftarkort félagsins gilda á tónleikana, en einnig er seldur aðgangur við innganginn. Miðaverð er kr. 3.000, en kr. 2.000 fyrir eldri borgara og öryrkja, en ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngri.