Heildaraflinn jókst um 107 þúsund tonn

Afli íslenskra skipa árið 2017 var 1.176 þúsund tonn sem er 107 þúsund tonnum meiri afli en landað var árið 2016. Aukið aflamagn á milli ára má nær eingöngu rekja til meiri loðnu og kolmunnaafla en tæp 197 þúsund tonn veiddust af loðnu á síðasta ári samanborið við 101 þúsund tonn árið 2016.

Tæp 229 þúsund tonn veiddust af kolmunna samanborið við tæp 187 þúsund tonn árið 2016. Botnfiskafli nam tæpum 429 þúsund tonnum á síðasta ári sem er 6% minni afli en árið 2016.

Að venju er þorskaflinn uppistaðan í botnfiskaflanum en tæp 253 þúsund tonn veiddust af þorski á síðasta ári sem er 4% minna en árið 2016. Flatfiskaflinn dróst saman um 8% milli ára og var tæp 22 þúsund tonn á síðasta ári. Afli skel- og krabbadýra nam 10,4 þúsund tonnum árið 2017 samanborið við 12,7 þúsund tonn árið 2016.

Í desembermánuði var fiskaflinn rúm 70 þúsund tonn sem er 18% meiri afli en í desember 2016. Aflamagn í desember var meira en árið áður í öllum lykiltegundum nema karfa og síld, en verkfall sjómanna sem hófst 14 desember 2016 hefur áhrif þar á.

DEILA