Vísindaport Háskólasetursin hefur göngu sína á nýjan leik á morgun eftir jólafrí.Gestur þessa fyrsta Vísindaports ársins er Jón Gunnar Biering Margeirsson tónlistarmaður og kennari við Tónlistarskólann á Ísafirði. Í erindi sínu kynnir hann meistaraverkefni sitt í tónlist sem fólst í því að nokkrir tónlistarmenn og kennari ferðuðust til Tasiilaq í Grænlandi og buðu upp á tónlistarvinnustofu fyrir unglinga í samstarfi við grunnskólann í Tasiilaq ásamt því að halda tónleika á staðnum.
Jón Gunnar útskrifaðist með B.Mus. í klassískum gítarleik vorið 2009 og MA gráðu í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (Joint Music Master for New Audiences and Innovative Practise (NAIP) frá Listaháskóla Íslands 2011. Hefur hann verið frumkvöðull í þróun og kennslu skapandi tónlistaráfanga sem nú eru kenndir á háskólastigi. Jón Gunnar hefur áður kennt skapandi tónlistarmiðlun við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og verið bæði stundakennari og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskólans.