Hætt verður að innheimta veggjald í Hvalfjarðargöngum í lok sumars, að sögn stjórnarformanns Spalar. Það sé í takt við það sem samið var um áður en framkvæmdir hófust fyrir bráðum tuttugu árum.
Þann 11. júlí næstkomandi verða tuttugu ár liðin frá því Hvalfjarðargöng voru opnuð með pompi og pragt, þessi tæplega sex kílómetra löngu jarðgöng undir Hvalfjörðinn. Síðan þá hafa vegfarendur greitt veggjald en í dag er það þúsund krónur fyrir staka ferð á fólksbíl. Skömmu eftir tuttugu ára afmæli ganganna kemur loks að því að gjaldtöku verði hætt.
Þó gjaldtöku verði hætt þarf að sinna ýmiskonar þjónustu við göngin sem lúta að öryggismálum og viðhaldi. Ríkið yfirtekur þá þjónustu en starfsemi Spalar verður hætt, allavega í núverandi mynd. Forsvarsmenn Spalar hafa hinsvegar lýst yfir áhuga á að koma að tvöföldun Hvalfjarðarganga, það er nýjum göngum.