Gera ekki athugasemdir við stækkun Arnarlax

Sjókvíar í Arnarfirði.

Vesturbyggð gerir ekki efnislegar athugasemdir við áform Arnarlax hf. að auka ársframleiðslu á laxi í Arnarfirði um 4.500 tonn. Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn Vesturbyggða um það hvort áform Arnarlax skuli sæta umhverfismati. Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að sveitarfélagið hefur ekki þekkingu á eða aðstöðu til að gera nægjanlega grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun eins og beðið er um í bréfi Skipulagsstofnunar. Það verkefni er á hendi eftirlitsaðila.

Vesturbyggð minnir á mikilvægi þess að sveitarfélög hafi skipulagsvald yfir hafsvæði utan netalaga og áréttar mikilvægi þess að opinberar eftirlitsstofnanir sinni hlutverki sínu af alúð í þágu umhverfis og lífríkis sjávar m.a. með því að hafa fasta starfsstöð á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem á landssvæðinu er eitt umfangsmesta sjókvíaeldi í landinu.

DEILA