Gangamenn komnir á fullt á ný

Báðir borar verktakans í útskoti B.

Í viku 51 á síðasta ári voru grafnir 9,5 metrar í Dýrafjarðargöngum. Á þriðjudeginum 19. desember fóru starfsmenn í jólafrí og ekkert unnið í göngunum til 3. janúar. Í fyrstu viku þessa árs voru grafnir 29,2 metrar og í lok vikunnar voru göngin orðin 850,7 metrar sem er 16% af heildarlengd ganganna.

Í lok síðasta árs og í viku 1 á þessu ári hefur verið grafið stærra snið í útskoti C. Í útskot C kemur neyðarrými.

Sem fyrr hefur verið grafið í gegnum þrennskonar efnisgerðir. Berggangurinn sem hefur verið í vinstri vegg ganganna var í lok vikunnar búinn að skiptast í marga grennri ganga og kominn í allt snið ganganna. Neðst í sniðinu er kargi á leiðinni upp og þar fyrir neðan er kargabasalt og má gera ráð fyrir að betra berg sé á leiðinni upp í sniðið. Í þekjunni er svo basaltið sem grafið hefur verið í síðustu vikurnar. Úr lofti og veggjum dropar vatn.

Efni úr göngunum er keyrt í vegfyllingu sem er komin um 530 metra frá enda fyrirhugaðs vegskála. Enn á þó eftir að hækka veginn töluvert.

DEILA