Baldur er öryggismál

Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs er öryggismál yfir háveturinn fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem enn eru ekki öruggar og tryggar samgöngur um Vestfjarðaveg 60. Baldur hefur verið bilaður í hartnær tvo mánuði. Í bókun bæjarráðs segir að ítrekuð röskun á áætlanaferðum skipsins veldur bæði tjóni fyrir fyrirtæki og óöryggi fyrir íbúa sem treysta á reglubundnar ferðir þegar veður eru válynd og greiðar vegasamgöngur óvissar. Jafnframt veldur þessi röskun allmiklum tekjumissi fyrir hafnarsjóð Vesturbyggðar, ferðaþjónustu, fiskvinnslu og atvinnulífið almennt á svæðinu.

Bæjarráð Vesturbyggðar krefst þess að nú þegar verði fundin varanleg lausn með því að ný ferja leysir núverandi skip af hólmi sem engan veginn uppfyllir nútímakröfur um flutninga fólks og vörur á hagkvæman, þægilegan og fljótan hátt.

DEILA