Það verður austanátt á Vestfjörðum í dag, 8-15 m/s. Frost 2-8 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að 960 mb lægð er stödd 900 km suðvestur af Reykjanesi og veik fyrirstöðuhæð er við Scoresbysund á Grænlandi. Saman boða þessi tvö veðrakerfi endann á logninu sem verið hefur víða um land og það gengur í austan strekking í dag, en búist er við hvassviðri eða stormi syðst á landinu og einnig við Öræfajökul. Lægðin heldur sig langt suður af landi í dag og nær hún því ekki að senda neina úrkomu að ráði til okkar. Þó verður slydda eða snjókoma af og til á Suðausturlandi fram eftir degi og dálítil él austanlands, en hann hangir þurr í öðrum landshlutum. Frost víða 0 til 5 stig sem er hlýrra en verið hefur.
Á morgun og hinn daginn er svipað munstur veðrakerfa í grunninn, þ.e. lágþrýstingur suður af landinu, en hár þrýstingur norðuraf. Hann blæs því áfram af austri, hvasst með suðurströndinni, en skaplegra annars staðar. Það verða væntanlega lítilsháttar él um landið austanvert, en bjartviðri vestantil. Áfram verður hiti neðan frostmarks.
Færð á vestfirskum vegum
Hálka eða snjóþekja á öllum vegum en þungfært norður í Árneshrepp en þar er verið að moka. Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar eru ófærar.