Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 198.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í nóvember 2017, sem jafngildir 80,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 194.700 starfandi og 3.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79,2% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,7%.
Samanburður mælinga fyrir nóvember 2016 og 2017 sýna að vinnuaflið hefur dregist saman um 1.000 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkað um 3,5 prósentustig. Fjöldi starfandi stendur nánast í stað en hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði þó um 2,9 prósentustig.
Atvinnulausir eru um 1.200 færri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra lækkaði um 0,6 prósentustig. Alls voru 47.900 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 10.100 manns frá því í nóvember 2016 en þá voru þeir 37.800.