Arctic Fish kaupir fóðurpramma

Fóðurprammi þeirrar gerðar sem Arctic Fish var að kaupa.

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur fest kaup á fyrsta fóðurpramma fyrirtækisins. Áætlað er að pramminn komi til landsins í haust og mun hann þjónusta kvíar fyrirtækisins í Dýrafirði. Pramminn er keyptur af norska fyrirtækinu AKVA group en Arnarlax á Bíldudal hefur einnig keypt einn fóðurpramma þaðan.

Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir að fyrirtækið sé í uppbyggingu í sjókvíaleldi sínu og kaupin á fóðurprammanum eru liður í því. „Frá okkar bæjardyrjum séð er góður búnaður lífsnauðsynlegur til að ná okkar markmiðum í eldi. Við stefnum á að framleiða 2,5 milljónir seiða á næsta ári og á þessu ári hefjum við eldi á tveimur nýjum stöðum og erum stöðugt að víkka út starfsemina,“ segir Stein Ove Tveiten.

Að auki hefur Arctic Fish samið um valrétt á öðrum fóðurpramma sömu gerðar. Nýti fyrirtækið valréttinn kemur hann á næsta ári og verður staðsettur á Patreksfirði.

DEILA