Á síðasta ári voru útköll björgunarþyrla og flugvéla Landhelgisgæslu Íslands alls 257, samkvæmt bráðabirgðatölum frá flugdeild Gæslunnar.
Árið 2016 voru þau 251 og hefur því útköllunum fjölgað enn eitt árið, að því er kemur fram í tilkynningu, en árið 2011 voru útköllin 155. Heildarfjöldi útkalla hjá flugdeild hefur því á þessu tímabili vaxið um 66 prósent, úr 155 í 257. Fjölgun forgangsútkalla (Alfa) var umtalsverð. Árið 2016 voru þau 87 en í fyrra voru þau rúmlega eitt hundrað.
Flugferðir Landhelgisgæslunnar á árinu voru alls 628 og eru þá æfinga- og gæsluflug meðtalin, auk leitar og björgunarútkalla.
Alls var þyrlum og loftförum Landhelgisgæslunnar flogið í 1.551 tíma. Flugstundir á þyrlunum voru samtals 880 en 671 á flugvélinni TF-SIF. Tvær þyrluáhafnir voru til taks rétt rúmega helming ársins (56 prósent) en það er forsenda þess að hægt sé að sinna leitar- og björgunarútköllum lengra en tuttugu sjómílur á hafi úti.
Í tilkynningu kemur fram að oftast takist að manna tvær áhafnir þegar mikið liggur við.