Vegagerðin undirbýr framkvæmdir í Djúpinu

Vegurinn í Seyðisfirði er einbreiður á köflum.

Vegagerðin hefur hafið kynningarferli á framkvæmdum á Djúpvegi 61 í  Hestfirði, Seyðisfirði og í Álftafirði í Súðavíkurhreppi. Í framkvæmdinni felst endurbygging og nýbygging á um 7 km löngum vegkafla frá Leiti í Hestfirði að Eyri í Seyðisfirði og nýbygging á um 2,2 km löngum vegkafla á Djúpvegi um Hattardalsá í austanverðum Álftafirði með byggingu nýrrar brúar á Hattardalsá sem verður talsvert neðar en núverandi brú sem er einbreið.

Í kynningarskýrslu kemur fram að áætlað er að hefja vegagerð í Hest- og Seyðisfirði sumarið 2018, eða þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Verklok er áætluð haustið 2019. Kostnaður við framkvæmdina er um 600 milljónir. Í vegáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 150 milljónum kr. til verksins árið 2018 og 450 milljónum kr. árið 2019.

Ekki er vitað hvenær bygging nýs vegar og brúar á Hattardalsá mun fara fram en gert er ráð fyrir að það geti í fyrsta lagi orðið árið 2020. Heildarkostnaður við þá framkvæmd er áætlaður um 230 milljónir kr. Fjárveitingar samkvæmt langtímaáætlunum fyrir byggingu brúar á Hattardalsá eru áætlaðar á árunum 2019-2023.

Gula línan er núverandi veglína og brú en rauða línan sýnir nýjan veg og nýtt brúarstæði.

smari@bb.is

DEILA