Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tók í dag við fyrsta eintakinu af fossadagatalinu 2018 úr hendi þeirra Tómasar Guðbjartssonar hjartaskurðlæknis og Ólafs Más Björnssonar augnlæknis. Þá fékk ráðherra einnig afhentan 44 síðna bækling með myndum af 30 af þeim fossum sem verða undir ef Hvalárvirkjun verður að veruleika. Í tilkynningu segir að langflestir fossanna hafi, áður en þeir settu fossadagatalið á Facebook í september á þessu ári, ekki sést á mynd.
Framtakið kosti þeir félagar úr eigin vasa og engin samtök né stjórnmálaflokkur komi að útgáfunni. Grafískur hönnuður var Guðbjörg Tómasdóttir.
„Á morgun sendum við öllum ráðherrum, alþingismönnum, sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum og stjórnum orkufyrirtækja dagatalið og bæklinginn, þeim að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningunni.
„Markmið okkar er að láta náttúruna á þessu svæði njóta vafans, en við teljum þetta svæði einhverja helstu náttúruperlu Íslands, ekki síst fossana en þarna leynast 5 fossar, sem flestir eru lítt þekktir og nafnlausir, sem við teljum náttúrperlur á heimsmælikvarða. Þarna teljum við kjörið að stofna friðland eða þjóðgarð þar sem fossarnir gætu verið í forgrunni.“
Dagatalið verður sett í sölu í útvistarverslunum Everest og Fjallakofans og í Lyfjaveri og Melabúðinni.
Ágóði af útgáfunni rennur til Rjúkanda, samtaka um verndun náttúru og menningarverðmæta í Árneshreppi á Ströndum.