Á heimasíðu Vestra kemur fram að síðastliðinn föstudag hafi birst listar yfir æfingahópa Körfuknattleikssambands Íslands fyrir yngri landslið. Vestri á óvenju stóran og glæsilegan hóp þar innanborðs en alls eru 10 krakkar frá félaginu í æfingahópunum. Þessi miklu fjöldi ber vitni um það öfluga barna- og unglingastarf sem fram hefur farið í deildinni undanfarin ár. Þetta er einnig í takti við þann mikla fjölda krakka sem leggur hart að sér í hverri viku við að bæta sig í íþróttinni undir öruggri handleiðslu Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara og annarra þjálfara deildarinnar.
Æfingahóparnir koma saman rétt fyrir jól og á milli jóla og nýárs á suðvesturhorninu og æfa undir handleiðslu landsliðsþjálfara hvers hóps.
Í U-15 æfingahópi stúlkna eru þrjár Vestra stelpur, þær Helena Haraldsdóttir, Katla María Magdalena Sæmundsdóttir og Rakel Damilola Adeleye. Þessar þrjár stúlkur eru í 9. flokki en fögnuðu áfanganum með góðum sigri í bikarkeppni KKÍ á sunnudag ásamt stöllum sínum í 10. flokki og tryggðu liðinu sæti í undanúrslitum.
Í U-15 æfingahópi drengja er Strandamaðurinn Friðrik Heiðar Vignisson sem hefur æft og spilað með Vestra undanfarin ár ásamt því að æfa með Geislanum á Hólmavík. Þess má geta að Friðrik hefur að mestu spilað ár upp fyrir sig og varð m.a. bikarmeistari með 9. flokki drengja hjá Vestra í vor. Um helgina lék hann með 10. flokki í bikarkeppni KKÍ en sameiginlegt lið Vestra og Skallgríms tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar á sunnudag.
Í U-16 æfingahópi stúlkna eiga þær Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir og Hjördís Harðardóttir sæti. Þær stöllur fögnuðu árangrinum á sunnudag ásamt félögum sínum í 10. flokki með því að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með sigri á Breiðablik.
Í U-16 æfinghópi drengja eiga sæti þeir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir ásamt félaga sínum Agli Fjölnissyni en Hilmir og Hugi tóku þátt í verkefnum U-15 landsliðsins í sumar. Líkt og aðrir iðkendur voru þeir félagar önnum kafnir um helgina og tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarsins 10. flokki með sigri á KR en Vestri er ríkjandi bikarmeistarar í þessum aldursflokki.
Að lokum á Björn Ásgeir Ásgeirsson sæti í U-18 æfingahópi drengja. Björn Ásgeir fagnaði þessum áfanga með frábærum leik á föstudag með meistaraflokki karla í 1. deildinni þar sem hann skoraði 23 stig. Björn Ásgeir kom til Vestra frá Hamri í sumar en hann var í U-16 landsliði Íslands árið 2016.
bryndis@bb.is