Þarf að halda jól fyrir sunnan vegna tvíburafæðingar

Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir. Mynd: Vísir / Anton Brink

„Þetta er í fimmta skiptið sem ég fer suður á meðgöngunni og kostnaðurinn við það er orðinn nokkuð mikill. Ég er komin 35 vikur á leið og er sett í fyrstu viku nýs árs. Því mun ég halda jól og áramót hér fyrir sunnan fjarri heimabyggð,“ segir Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir, verðandi móðir tvíbura á Ísafirði. Rætt er við hana í Fréttablaðinu í dag. Hún þarf að verja jólum og áramótum í höfuðborginni af þeirri einu ástæðu að hún gengur með tvíbura sem er von á í byrjun janúar. Ekki er hægt að fæða tvíbura á Ísafirði og í rauninni er engin fæðing leyfileg á Vestfjörðum sem kalla mætti áhættufæðingu.

Kostnaður við sífelldar suðurferðir hleypur á hundruðum þúsundum króna þegar tekið er tillit til tekjumissis og aðstöðumunur foreldra mikill eftir því hvar á landinu þeir búa. Sjúkratryggingar greiða ekki fyrir ferðir maka og gisting er að litlu leyti niðurgreidd.

smari@bb.is

DEILA