Dómnefndin sem fjallar um hæfni umsækjenda um héraðsdómaraembætti hefur ekki lokið störfum, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Eitt embættanna er við héraðsdóm Vestfjarða. Samkvæmt frétt Kjarnans skipar ráðherra í embættin í þessum mánuði, enda á skipun dómaranna að taka gildi 1. janúar á næsta ári. Ekki hefur verið starfandi dómari við héraðsdóm Vestfjarða frá því í september þegar Sigríður Elsa Kjartansdóttir fluttist í héraðsdóm Reykjavíkur.
Forsætisráðuneytið setti Guðlaug Þór Þórðarson sem dómsmálaráðherra til að fara með málið eftir að Sigríður Á. Andersen vék sæti í málinu. Sigríður taldi sig vanhæfa þar sem einn umsækjenda er Ástráður Haraldsson. Taldi hún að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur drægju óhlutdrægni hennar í efa. Ástráður hefur átt í málaferlum vegna skipunar ráðherra á dómurum í Landsrétt fyrr á þessu ári.