Hjónin Julie Gasiglia og Aron Ingi Guðmundsson opnuðu í sumar Húsið – House of Creativity í Merkisteini, Aðalstræti 72, á Patreksfirði. Með Húsinu vilja þau efla og virkja menningar og listastarfsemina á sunnanverðum Vestfjörðum. Fjölbreytt dagskrá er í boði og eru þar listasýningar, skapandi vinnustofur, klúbbar og ýmis þemakvöld til að mynda. Ljósmyndaklúbbur Hússins er mjög vinsæll sem og Bókaklúbbur Hússins og svo eru þar vín- og vínylkvöld þar sem gestir koma með vín aeða bjór til að leyfa öðrum að smakka og einnig er gestum velkomið að koma með vínylplötur með sér svo hægt sé að hlusta á ljúfa tóna plötuspilarans þessa skemmtilegu kvöldstund. Í sumar voru nokkur námskeið í boði sem voru vel sótt og munu fleiri námskeið og vinnustofur vera á dagskrá í vetur. Aron og Julie leggja áherslu á að Húsið sé ákveðinn samkomustaður þar sem heimamenn sem og aðrir geti komið saman, skapað, lært og skemmt sér með öðrum. Þau eru einnig opin fyrir allskonar samstarfi og hvetja fólk til að hafa samband ef það vill til dæmis vera með sýningu, fyrirlestur eða kennslu í Húsinu. Saumaðir voru taupokar í Húsinu einsu sinni í viku fyrr í vetur fyrir samvinnuverkefnið um plastpokalausa Vestfirði í samstarfi við Boomerang Bags og Vesturbyggð.
Aron og Julie eru spennt fyrir komandi vetri og bjóða alla velkomna í Húsið. Viðburðir þar eru ókeypis og selja þau heita og kalda óáfenga drykki fyrir gesti og gangandi. Verð á vinnustofum og námskeiðum eru misjöfn eftir viðfangsefnum. Þau hjón eru með áform um að víkka út hugmyndina um Húsið og hefja starfsemi í gamalli verbúð við höfnina á Patreksfirði með sama markmiði, um að efla og virkja lista og menningarstarfsemi svæðisins. Þau vonast til að opna þar næsta vor. Þar munu m.a. vera vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði, tónleikarými og æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir og handiðnaðarverslun. Starfsemin þar verður rekin samhliða dagskránni í Húsinu í Merkisteini.