Sérrit um Þingeyrarkirkju

Í sumar komu út þrjú ný bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands, númer 26, 27 og 28. Með þeim lýkur útgáfunni, að frátöldu yfirlitsbindi sem áætlað er að komi út 2018. Þar með hefur verið fjallað um 214 friðaðar kirkjur, en þær eru núna 216 talsins. Nú hefur verið gefið út sérrit um Þingeyrarkirkju og er það fáanlegt hjá sóknarnefnd kirkjunnar.

Bindin þrjú fjalla um 28 kirkjur í Vestfjarðaprófastsdæmi ásamt gripum þeirra og minningarmörkum. Frá því ráðist var í útgáfuna um aldamótin 2000 hefur Hólmavíkurprestakall verið fært yfir í Vestfjarðaprófastsdæmi, einnig Staðarhólssókn og Skarðssókn á Skarðsströnd, en um friðaðar kirkjur í þeim umdæmum var fjallað í bindum 7 og 16.

Í bindi 26 er sagt frá kirkjum sem áður tilheyrðu Barðastrandarprófastsdæmi: Bíldudalskirkju, Brjánslækjarkirkju, Gufudalskirkju, Hagakirkju, Patreksfjarðarkirkju, Sauðlauksdalskirkju, Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, Selárdalskirkju, Staðarkirkju á Reykjanesi og Stóra-Laugardalskirkju.

Í bindi 27 segir af kirkjum sem að Hólskirkju undanskilinni voru áður fyrr í Vestur-Ísafjarðarprófastsdæmi: Holtskirkju, Hólskirkju í Bolungarvík, Hrafnseyrarkirkju, Hraunskirkju í Keldudal, Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal, Mýrakirkju í Dýrafirði, Staðarkirkju í Súgandafirði, Sæbólskirkju á Ingjaldssandi og Þingeyrarkirkju.

Loks er í bindi 28 fjallað um kirkjur við Ísafjarðardjúp, á Hornströndum og í Jökulfjörðum, sem allar heyrðu fyrrum til Norður-Ísafjarðarprófastsdæmis: Bænhúsið í Furufirði, Eyrarkirkju við Seyðisfjörð, Nauteyrarkirkju, Staðarkirkju í Aðalvík, Staðarkirkju í Grunnavík, Súðavíkurkirkju, Unaðsdalskirkju, Vatnsfjarðarkirkju og Ögurkirkju.

Höfundar bókanna eru sautján: Dr. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritar sögu allra kirkjustaða í bindi 26. Valdimar H. Gíslason sagnfræðingur skrifar um níu kirkjustaði í bindi 27 og er auk þess höfundur að byggingarsögu Mýrakirkju. Einar Ísaksson, minjavörður Vestfjarða, ritar sögu sjö kirkjustaða við Djúp og einnig kafla um Staðarkirkju í Súgandafirði. Auk hans skrifa sjö höfundar um kirkjur, sögu þeirra, lýsingu og list. Verkaskipting þeirra er þessi: Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur skrifar um fjórar kirkjur í bindum 26 og 27. Þór Hjaltalín, minjavörðu Norðurlands Vestra, sömuleiðis um fjórar, allar í bindi 27. Þá skrifar Sigríður Björk Jónsdóttir listfræðingur um þrjár í bindi 26 og arkitektarnir Elísabet Gunnarsdóttir og Stefán Örn Stefánsson um sína kirkjuna hvort, hin fyrrnefnda í bindi 28, sá síðarnefndi í bindi 26. Hjörleifur Stefánsson arkitekt skrifar um fimm kirkjur í bindi 28 og Guðmundur L. Hafsteinsson arkitekt um sex í bindum 26 og 27 og ritar að auki alfarið um kirkjurnar þrjár á Hornströndum og í Jökulfjörðum, um kirkjustaði, kirkjur, gripi og áhöld, kirkjugarð og minningarmörk. Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, lýsir gripum og áhöldum allra kirkna í bindi 26, einnig minningarmörkum í sömu kirkjugörðum og í garðinum í Hrauni. Séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir lýsir gripum og áhöldum fimm kirkna í bindi 27 og einni betur, Núpskirkju, sem ekki er friðuð. Þá rekur hún einnig byggingarsögu Þingeyrarkirkju. Þau Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðumaður Safnahússins Ísafirði, og † Björn Baldursson safnvörður skrifa saman um gripi og áhöld fjögurra kirkna í bindi 27, en Jóna Símonía skrifar ein um gripi fimm kirkna í bindi 28, eftir að Björn féll frá í árslok 2016. Þá ritar Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafns, um gripi og áhöld Vatnsfjarðarkirkju. Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs, lýsir 25 kirkjugörðum, og Guðlaug Vilbogadóttir, sérfræðingur á Minjastofnun Íslands, greinir frá minningarmörkum í fjórtán þeirra.

bryndis@bb.is

DEILA