Sædísin sökk í Ísafjarðarhöfn

Sædís liggur á botninum í höfninni á Ísafirði.

Á jóladag uppgötvaðist að Sædís ÍS, einn báta Byggðasafn Vestfjarða, hafði sokkið í Ísafjarðarhöfn. Jón Sigurpálsson, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða, segir ekki vitað hvers vegna Sædísin sökk. „Við tökum hana upp á morgun og þá fáum við væntanlega skýringu á þessu. Það var farið í hana á Þorláksmessu og þá var allt í lagi, enginn sjór í henni og dælurnar í lagi,“ segir Jón

Hann telur að báturinn komist að mestu óskaddaður frá þessu volki. „Það er ekkert í henni, engin vél eða nokkur skapaður hlutur og hún á alveg að þola þetta.“

Sædís var byggð á Ísafirði árið 1938. Þá var staða sjávarútvegs í bænum sú að Samvinnufélag Ísfirðinga og h.f. Huginn voru aðsópsmestu útgerðarfélögin. Hitt félagið var Njörður, en Kaupfélag Ísfirðinga var þar stærsti hluthafinn. Fyrsti stjórnarformaður Njarðar var Guðmundur G. Hagalín en Ketill Guðmundsson, kaupfélagsstóri, varð fyrsti framkvæmdastjóri. Sædís varð fyrsti bátur félagsins, smíðuð árið 1938 eins og áður var nefnt. Ásdís var smíðuð sama ár, og árið 1940 höfðu þrjár „dísir“ bæst í flotann, Bryndís, Hjördís og Valdís. Allir voru þessir bátar teiknaðir og smíðaðir af Bárði G. Tómassyni, skipaverkfræðingi á Ísafirði. Enn síðar bættist raunar sjötta dísin við, Jódís. Dísirnar voru allar gerðar út fram yfir síðari heimsstyrjöld og stunduðu ýmist línu- dragnóta- eða reknetaveiðar.

DEILA