Ríkisstjórnin tryggi fjármagn til rækjurannsókna

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands til að tryggja Hafrannsóknarstofnun fjármagn til að efla rækjurannsóknir við Ísland og Ísafjarðardjúp sérstaklega til að skilja megi til hlýtar ástæður lítillar nýliðunar. Umrædd atvinnugrein skiptir miklu máli fyrir samfélagið við Djúp og því mikilvægt að vandað sé til verka með það að markmiði að hægt sé að stunda sjálfbærar veiðar í atvinnuskyni. Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn samþykkti fyrir helgi. Engar rækjuveiðar verða stundaðar í Ísafjarðardjúpi í vetur samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar að loknum haustrannsóknum.

Í ályktuninni er bent á að rækjuveiðar og vinnsla hafa verið stundaðar við Ísafjarðardjúp frá árinu 1935 og skipta samfélagið miklu máli. Árlegur rækjuafli úr Ísafjarðardjúpi hefur iðulega verið á bilinu 1700-2500 tonn og farið upp í 3000 tonn. Það er því grafalvarlegt mál fyrir samfélagið hér að ákveðið hafi verið að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, vertíðina 2017-2018.

Síðast þegar rækjuveiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi stóð það bann í 9 ár. Í ályktunni er minnt á að Arnarfjörður og Ísafjarðardjúp eru síðustu tvö innfjarðarækjusvæðin sem nýtt eru við Ísland, af átta skilgreindum innfjarðarækjustofnum við landið. „Alger friðun á hinum svæðunum sex, í hartnær tvo áratugi, hefur engum árangri skilað í uppbyggingu rækjustofnanna en er hinsvegar á góðri leið með að gera út af við atvinnugreinina á viðkomandi svæðum,“ segir í ályktuninni sem var samþykkt samhljóða.

smari@bb.is

DEILA