Ríkisstjórnin bregst við #metoo

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um stefnu og áætlun félags- og jafnréttismálaráðherra gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi, sem gildir fyrir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði á ríkisstjórnafundinum til að allir ráðherrar hvetji til kynningar og fræðslu um gildandi stefnu og áætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. Forsætisráðherra lagði jafnframt til að allir ráðherrar hvetji til þess að gerðar verði kannanir á hugsanlegum tilvikum kynferðislegrar áreitni, að jafnaði árlega, í hverju ráðuneyti, að unnið verði með niðurstöður þeirra og tryggt að í hverju ráðuneyti liggi fyrir skýrt ferli viðbragða þegar kvartað er undir kynferðislegri áreitni.

Gildandi áætlun var samþykkt innan Stjórnarráðsins sl. vor og var unnin í samræmi við ákvæði reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. Stuðst verður við áætlunina í öllum tilvikum þar sem starfsmenn eru grunaðir um að leggja aðra starfsmenn, eða aðra sem áætlunin tekur til, í einelti eða áreita á annan hátt.

Núgildandi jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins kveður jafnframt á um að fræðsla um kynbundna og kynferðislega áreitni, og meðferð slíkra mála, verði þáttur í fræðslu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Haldin verða námskeið í janúar og febrúar fyrir það starfsfólk sem tekur á móti kvörtunum starfsfólks vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni og í framhaldinu verður öllum starfsmönnum Stjórnarráðsins boðið uppá fræðslu um þetta málefni.

smari@bb.is

DEILA