Nemendum ofan grunnskóla fækkaði

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 41.519 haustið 2016 og fækkaði um 1.018 frá fyrra ári, eða 2,4%. Nemendum fækkaði bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Alls sóttu 18.756 karlar nám og 22.763 konur. Körlum við nám fækkaði um 293 frá fyrra ári (-1,5%) en konum um 725 (-3,1%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 22.564 nemendur nám og fækkaði um 2,3% frá fyrra ári. Á háskólastigi í heild voru 18.111 nemendur og fækkaði um 2,6% frá haustinu 2015. Nemendur í námi til fyrstu háskólagráðu voru 13.282 og fækkaði um 2,3% frá fyrra ári og nemendum í námi til meistaragráðu fækkaði um 4,8% og voru 4.125 haustið 2016. Nemendum í námi til doktorsgráðu fjölgaði um fjóra (0,9%) og voru 469.

Færri 16 ára stunda nám
Skólasókn, þ.e. hlutfall af aldurshópi 16 ára nemenda sem sækja skóla, var 94,7% í skólum ofan grunnskóla haustið 2016 en var 95,4% haustið 2015. Skólasókn var minni en árið áður bæði meðal drengja og stúlkna og sóttu 94,3% 16 ára drengja skóla og 95,0% 16 ára stúlkna.

Skólasókn haustið 2016 var meiri en haustið 2015 meðal 17-19 ára unglinga. Hins vegar sóttu færri skóla á aldrinum 20-26 ára en ári áður.

Skólasókn kvenna var meiri en karla í öllum árgöngum 16-29 ára að 20 ára nemendum undanskildum og einnig meðal háskólanemenda 30 ára og eldri. Ef eingöngu er litið á nemendur á framhaldsskólastigi, voru karlar hlutfallslega fleiri en konur á aldrinum 20-39 ára.

Skólasókn minnst meðal innflytjenda
Þegar skólasókn 16 ára og 18 ára var skoðuð eftir bakgrunni nemenda reyndist hún vera minnst meðal innflytjenda. Meðal 16 ára innflytjenda sóttu 84,1% skóla haustið 2016 og 53,7% voru í skóla við 18 ára aldur. Skólasókn við 16 ára aldur var mest meðal nemenda sem ekki hafa erlendan bakgrunn, 96,4% en við 18 ára aldur var skólasókn mest meðal þeirra sem teljast til annarrar kynslóðar innflytjenda, 100%.

Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þess skal getið, að aðeins 27-50 íbúar á þessum aldri tilheyra annarri kynslóð innflytjenda svo hver einstaklingur vegur þungt í tölunum.

Tæplega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi í starfsnámi
Tæplega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2016 en 67,0% stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðastliðinn áratug en var 36-38% á árunum 2000-2005. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2016 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 40,6% á móti 25,1% hjá konum.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri, lögheimili og uppruna ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki. Nemendur eru flokkaðir eftir bakgrunni samkvæmt innflytjendagrunni Hagstofu Íslands.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

bryndis@bb.is

DEILA