Myndarlegur borgarísjaki sést á gervihnattarmynd sem tekin var norður af Vestfjörðum í gærkvöldi. Á korti, sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands gerir eftir mynd frá Geimvísindastofnun Evrópu, má sjá ísjakann umlukinn gisnum hafís norður af Vestfjörðum.
Samkvæmt því er fram kemur á Facebooksíðu Eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands er borgarísjakinn talinn vera 500 metrar að lengd og 200 metrar að breidd.
Mjög kaldur sjór hefur að undanförnu streymt austur á bóginn, frá Grænlandssyndi og í átt að Grímsey. Í kalda sjónum á Húnaflóa voru skýr merki um að aðstæður til nýmyndunar hafíss væru fyrir hendi, en sjór þarf að vera orðinn ansi kaldur til að geta frosið, því seltan lækkar frostmarkið. Ef sjór er fullsaltur, þarf hann að ná -1,8°C til að ná að frjósa, á meðan ferskt vatn frýs við 0°C.
smari@bb.is